URL: http://www.everk.it/index.php?hidh-bernska-kyn-la-infana-raso-islandlingve



Hið bernska kyn - La Infana Raso islandlingve

Fyrsti kafli

Baldur Ragnarsson tradukis la unuan ĉapitron de La Infana Raso de William Auld

Heill þér, ái Ruben, mætur múrasmiður,
sem kirkjuþökin forðum kleifst jafnt upp sem niður
og skrípitröll og engla hjóst á helga stafna!
Og þér af Rúbens húsi, er sigldir handan hafna
með sjávarfroðu í vitum og höfin ógnum fylltir
og dóttur Jóns á kránni með daðurleikjum villtir
og son með henni gast, en hvarfst í ölduflóði
á mararbotn að hinstu - ég heilsa þér í ljóði!
(Og líka þér sem dillaðir í kjöltu smáum sveini,
sem síðar óx til glæpa og mörgum varð að meini
og bæði stal og myrti og brann í holtsins hýði
og hálfrefi gat tíu, og einn af þeim í stríði
til Póllands fór, varð ástfanginn af altillegum konum,
frændum mínum þar á bæ ég fagna því að vonum!)
Og ykkur, þúsund feður, er þrældómsokið sveitti,
ég heilsa, afkomandi, sem ekki tíminn breytti;
en þó mun ykkur blöskra, með böðlum hann þar finni
til frændsemi að jöfnu og heilsi sama sinni.
Því ykkur mun það undra, að eðalborinn niðji
og sveinn af ættum þræla ættir mínar styðji,
að örlaganna kenjar hafi í jöfnum mæli
blandað blóð mitt arfi frá keisara og þræli.
(En þó mun ykkar undrun engan veginn jafnast
á við hneykslun þeirra er í hallarsali safnast!)

Og ykkur, loðnu feður í myrku þjóðafljóti,
sem forðum hjuggu sverðum og veltu ofan grjóti
á Rómverjanna sveitir og sigruðu Agríkólu,
ég einnig heilsa: AVE!
                                     Já, þessar þjóðir ólu
mér flestar erfða agnir sem ótal tölur sanna:
að heildarfjöldi gena í æðum minna manna
sem afar mínir voru þá í víðum löndum Breta,
var mannfjöldanum meiri, að því er fróðir meta!
En einnig þar í stoltum röðum Rómarsveita
að öfum mínum öðrum þarf ei lengi að leita,
og þegar brugðu að hálsum hnífum vopnamóðir,
barbarinn og Rómverjinn, af orustunni óðir,
þá börðust höldar tveir, sem síðar sáttir unnu,
í sjálfum mér þeir báðir um æðar mínar runnu.
Bróður síðu annar klýfur höggi hörðu:
Gjafari míns blóðs sér blóð mitt streyma í jörðu ...

Og eldmóðslaust ég heilsa þér í framhjáflani,
forfaðirinn mæddi, dapri púrítani;
þeim næsta kumpánlega ég ber á baki glaður;
þitt baldna skap ég erfði, drukkni listamaður!
Þig kveð ég kossi, Maja, sem hálminn vast í vendi,
og vef þig örmum, Lísa, sem ástarfuninn brenndi,
því barn í heim þú fæddir - og faðernið ei víst um
en flestum drýgri á ásta- og matargerðarlistum.
Ég afa mínum, klæðskeranum, heilsa hátíðlega,
og þér . . .
og þér . . .
þér líka . . .

þá sál mín njörvast trega
að geta ei kannað sporin öll án þess hugann svimi,
getnað hvern og barnsburð í kynslóðanna brimi,
sem verund minni veltir í frændseminnar hafi
með prestum, pótentátum - og þar rísa úr kafi
betlarar og skækjur og allra landa lýður,
sem liðinn er í gleymsku, en mér blóði sýður . . .
Heill þér, kæri bróðir, sem berð þín föng um stræti,
við getnað löngu liðinn við hlutum bræðrasæti!
Þér, dómari minn harði, ég heilsa, vinur góði,
okkar tengsli knýttust í sama frumuflóði!
Þér kasta í bróðurfaðminn, hrjáði blökkumaður,
við frumutvískiptingu varð okkar aðskilnaður,
þú einnig, Jesú Kristur, úr landi breyskjubruna,
ert bróðir minn, þótt húð þín sé lituð sálarfuna,
að vísu ertu á myndum rjóðum holdslit rúinn;
okkar faðir forðum var sporð og tálknum búinn!

Óttalegt er fjölda forfeðranna að rausa um,
sem fjölga sér án afláts í kvaðrat endalausum,
í myrkur liðins tíma, keðja lífs og krafta,
grönn og seig hún hnígur enn í sortann aftar
til tíma þess er frumögn rann í öreind eina
af slysni nánast eins og okkur vísir greina,
og lífsins fyrsti neist flökti um myrkurnetin,
á augnabliki þessu var það að ÉG var getinn!
En ef í blindu stolti ég bera tel mér völdin,
með þér ei stansar tíminn, hvíslar feðra fjöldinn!
Þótt þú þig teljir fylling feðra þinna vina,
mun fylgja þér á hæla fylking þinna sona;
til þín frá fyrstu öreind - andartakið veika;
við leiðarbyrjun kyn þitt er ennþá ungt að reika.
Þú ert sem andardráttur ráðlauss barns í reifum;
þú komst, þú ferð með okkur sem áfram sífellt keifum!
Heill sé ykkur, feður, leystir líkamsböndum . . .
Verið hughraust, systkin, í öllum álfum, löndum -
því óræð tímans blekking, sem okkur skipti fyrrum,
mun okkur tengja að lokum!

Á meðan hugann kyrrum
á för um veg án merkja um myrkur þeirrar grósku,
sem óræð er og verður. Eflið kjark og þrjósku!


Lasta ĝisdatigo: 2021/01/09 - 23:48 - © EVA - Mauro Nervi